Sagan

Saga Tölvubankans.

Tölvubankinn var stofnaður árið 1981 af 3 kerfisfræðingum, sem hófust handa við að gera hugbúnað í þeim tilgangi að vera með alhliða tölvuþjónustu fyrir fyrirtæki. Einn af stofnendum var þegar búin að gera hugbúnað fyrir lífeyrissjóði, kreditkortakerfi og sölu- og pantanakerfi fyrir útflutningsfyrirtæki auk áskrifta- og auglýsingakerfi fyrir dagblað.
Snemma var mikið að gera og markmiðin náðust við hugbúnaðargerðina. Margir viðskiptavinir notfærðu sér þjónustu Tölvubankans við að skrá og færa bókhald, reikna laun, færa iðgjöld lífeyrissjóða o.fl.

Árið 1985 voru felldir niður tollar af tölvum og fyrirtækjum gert kleift að kaupa sínar eigin tölvur. Þá breytti Tölvubankinn um stefnu og fór að framleiða hugbúnað sem söluvöru. Þessi hugbúnaður var framleiddur fyrir IBM S/36 og var stefnan þá sett á framleiðslu heildarlausna fyrir fyrirtæki. Tölvubankinn gerði samstarfssamning við IBM, um sölu á S/36 tölvum og var alla tíð meðan S/36 tölvur voru framleiddar einn söluhæsti aðili á Íslandi. Mörg af stærstu fyrirtækjum landsins, sveitarfélög og lífeyrissjóðir versluðu við Tölvubankann og má nefna sérsmíðuð kerfi fyrir stofnanir eins og miðasölukerfi fyrir Þjóðleikhúsið, umferðakerfi skipa fyrir Reykjavíkurhöfn, gjaldendabókhald fyrir flest sveitarfélög landsins og margt fleira.

Í upphafi árs 1986 beið Tölvubankans mikil vinna í hugbúnaðargerð en vegna skorts á kerfisfræðingum á þessum tíma ákvað Tölvubankinn að stofna nýtt hugbúnaðarfyrirtæki, með eignarhlut starfandi kerfisfræðinga til að aðstoða Tölvubankann við úrvinnslu verkefna. Þetta fyrirtæki var stofnað ásamt fjórum kerfisfræðingum og var kallað Hugbúnaðarhúsið. Í lok ársins 1992 seldi Tölvubankinn sinn hlut í Hugbúnaðarhúsinu.

Upp úr árinu 1990 kom hugmynd frá Tölvubankanum að selja Kreditkortakerfið erlendis þá aðallega í austurblokkinni. Kreditkort hf. var til í að gera prufu, svo ráðinn var sölumaður sem vann sem þjónustustjóri hjá Eurocard International og þekkti hann vel markaðinn í austurblokkinni og í Tyrklandi. Mikil vinna var lögð í að staðfæra hið nýja Kreditkortakerfi, sem var hannað fyrir AS/400 fyrir erlendan markað og gerðar miklar breytingar á honum. Boðið var til kynningar og 3 stórir bankar með fjölda útibúa keyptu kerfið. Þar af ríkisbankinn í Tékkóslóvakíu og stærsti verslunarbankinn þar. Einnig keypti einkabanki í Tyrklandi með 37 útibú kerfið.

Á þessum árum voru þessar sölur svo til einu hugbúnaðarsölur íslendinga til erlendrar notkunar.

Allt þetta lofaði mjög góðu en auðvitað þurfti að breyta kerfinu töluvert vegna erlendra reglna. Tölvubankinn sá mikla möguleika með margar viðbótarsölur í öðrum löndum. Hinsvegar var verkefnið kostnaðarsamt og ekki mikil þekking á áhættufjárfestingum á íslenska markaðinum um þetta leyti. Þetta varð til þess að falast var eftir styrkjum til frekari þróunar en var hafnað nema að leggja veð fyrir öllu. Útrás félagsins vegna Kreditkortakerfisins var því lokið í framhaldinu þegar félaginu var gert skylt að borga óvæntan skatt í Tékklandi vegna sölu kerfisins. Þessi skattur var mjög hár og kom öllum á óvart.

Um 1990 hóf innreið sína PC viðskiptahugbúnaður fyrir fyrirtæki en árið 1994 var stofnuð ný deild innan Tölvubankans sem sérhæfði sig í þróun á lausnum í PC umhverfinu. Í framhaldi af þessari uppbyggingu voru keypt tvö fyrirtæki og þau sameinuð inn í Tölvubankann. Tilgangurinn var að efla hið nýja svið innan fyrirtækisins og var þá hafin þróun á nýjum lausnum. Markmiðið var ávallt að keppa ekki við PC bókhaldshugbúnað, heldur að þróa lausnir sem væru góð söluvara og gætu tengst ráðandi kerfum á markaðinum.

Framleiddur var hugbúnaður fyrir upplýsingatækni, sem byggist á Data Warehouse tækni. Símaeftirlitskerfi (Tel-Info), sem fylgist með allri símanotkun fyrirtækisins, bókunar- og reikningskerfi fyrir hótel og tímaskráningar- og viðverukerfi. Þessar lausnir hafa verið mjög vinsælar.

Frá arinu 2000 var nánast allur hugbúnaður Tölvubankans fyrir PC tölvur skrifaður í .net umhverfinu frá Microsoft eins og BizVision, Tel-Info, Hótelstjórinn og Tíma- og Viðverukerfið. Síðar bættust við iðgjaldakerfi fyrir lífeyrissjóði og innheimtukerfi fyrir Innheimtustofnun sveitarfélaga.
Árið 2005 var byrjað á SvarInfo símaeftirlitskerfi fyrir SwyxIt og árið 2007 hóf Tölvubankinn útflutning á Tel-Info í samstarfi með Svar-tækni. SvarInfo hefur selst til fyrirtækja í Danmörku, Englandi, Nýja-Sjáland og fleiri löndum.

Árið 2010 byrjaði Tölvubankinn að smíða hugbúnað í open source (Cloude), sem er jafnt fyrir PC tölvur, spjaldtölvur og snjallsíma. Áherslan var lögð á þann hugbúnað, sem Tölvubankinn var þegar búin að smíða í .net eins og Tel-Info símaeftirlitskerfið, sem þegar er komið í notkun hjá símafyrirtækjum eins og Vodafone og Advania, en þau fyrirtæki nota Tel-Info kerfið til þess að halda utan um og birta sínum viðskiptavinum símaupplýsingar. Gagnagreind er fjölþætt upplýsingakerfi tengt fjárhag stofnana og fyrirtækja. TÍST er öflugt tímaskráningar- og viðverukerfi, sem bíður upp á utanumhald á stimpilklukku, verkskráningu o.fl.

Í dag eru 2 af stofnendum Tölvubankans einu eigendur fyrirtækisins og Tölvubankinn hefur aldrei fengið neina styrki né almenningshlutafé til að reka fyrirtækið. Tölvubankinn er elsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins, sem er í eigu stofnaðila. S.l. árum hafa mörg af 100 stæðstu fyrirtækjum landsins verið í einhverjum viðskiptum við Tölvubankann.
Helsti markaðurinn eru sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki.

Markmið Tölvubankans hefur alla tíð verið að vera leiðandi á markaðnum með framúrskarandi lausnir í þeim kerfum sem fyrirtækið vinnur að hverju sinni og nýta þá stöðu mjög vel.