Tel-Info spurt og svarað

Tel-Info Spurt og Svarað

Eftirtaldar spurningar hafa komið upp á kynningum og í fyrirspurnum. Mikill áhugi er hjá notendum kerfisins að fá sem flestar upplýsingar út úr kerfinu og var því ákveðið að safna sama spurningum og svara þeim á sem auðveldastan hátt.

Athugið að vinnslugeta símstöðva er mismunandi, því getur verið að einhver svörin við spurningum gildi ekki fyrir þína símstöð.

Hvað þarf stóra tölvu til að nota Tel-Info og hvað ræður kerfið við stórar skrár?

Það fer allt eftir stærð fyrirtækisins, þ.e.a.s. fjöldi símtækja, sem eru í notkun. Venjuleg Pentium 300Mhz tölva dugar vel fyrir þessa notkun. T.d. 50 – 100 símtækja fyrirtæki notar 2GB diskapláss. Tölvubankinn prufaði kerfið á 16.160.832 færslur (stórt fyrirtæki) og þurfti til þess 8GB diskapláss.

Hvernig tengist Tel-Info kerfið símstöðinni?

Það er kapall (RS-232 serialkapall) sem tengdur er frá símstöðinni við tölvu. Í þeirri tölvu les Símritinn gögn frá símstöð yfir í textaskrá og síðan uppfærir Símlestur textaskrána yfir í gagnagrunninn.

Hvernig vel ég símstöð?

Með því að velja á valmyndinni Símstöðvar og smellið á hnappinn Virkar símstöðvar. Þá birtist mynd og þar er valin ný símstöð og einnig er valin slóðin, sem upplýsingarnar frá símstöðinni geymast í. Það er hægt að velja ótakmarkaðan fjölda símstöðva. Valdar símstöðvar einkennast með rauðum lit.

Er hægt að tengja saman fleiri en eina símstöð og fá upplýsingar frá þeim í einni fyrirspurn?

Já, Það er hægt að velja ótakmarkaðan fjölda símstöðva.

Þær eru valdar á sama hátt og tilgreint er í Hvernig vel ég símstöð?
Þegar fyrirspurnir eru gerðar, kemur nafn símstöðvar þar sem við á.

Hvað geri ég ef kerfið kemur með athugasemd um að fjöldi símtækja sé of mikill?

Þá þarf að hafa samband við Tölvubankann og fá staðfest að viðkomandi uppsetning sé gerð fyrir þann fjölda, sem um var samið. Ef fjöldi símtækja er of mikill þá er hægt að kaupa viðbót . Ef viðbót er keypt eða fjöldi símtækja var ranglega uppsettur þá þarf að fá aðgangsnúmer (fjöldi símtækja) hjá Tölvubankanum. Breytingin er gerð með því að velja aðal valmynd Viðhald og farið inn á Kerfi og og skrá þar aðgangstöluna.

Er hægt að vera með fleiri en eitt tungumál í gangi?

Já, í dag er möguleiki að velja íslensku, ensku og dönsku og í framtíðinni er ætlunin að bæta fleiri tungumálum við kerfið. Sérhver notandi getur valið það tungumál, sem honum hentar. Til að velja tungumál er valið Viðhald og farið inn á Kerfi og þar er valið tungumál.

Er Tel-Info gagnagrunnurinn geymdur á “server”?

Hægt er að geyma gagnagrunninn á hvaða tölvu sem er. Algengt er að gagnagrunnurinn sé vistaður á server.

Geta margir notað kerfið samtímis?

Já, sérhver notandi er með mismunandi aðgang.

Er hægt að takmarka aðgang notenda?

Já, í dag er hægt að takmarka fyrirspurnir við þrjá möguleika og er hverjum aðgangi stýrt með aðgangsorðum.

  1. Aðgangur að öllum upplýsingum.
  2. Aðgangur að tiltekinni deild.
  3. Aðgangur að ákveðnum notanda (símtæki/starfsmaður).

Geta notendur séð hverjir hringdu og ekki náðu sambandi?

Já, hvenær sem er getur notandi valið ýmsar upplýsingar um notkun sína og meðal þeirra eru ósvöruð símtöl. Hægt er að takmarka valið á margvíslegan hátt t.d. miðað við daga, tíma dags, símanúmer o.fl.

Er hægt að útiloka ákveðin símtæki frá kerfinu?

Já, með því velja Viðhald og farið inn á Kerfi, þar eru skráð númer símtækja í svæðið sem nefnist Sjálfsalar.

Er möguleiki að sýna ekki allt símanúmerið, sem hringt er í eða hringir inn?

Já, með því velja Símstöð og fara inn á Almennt. Þar er skráð í svæðið Filter símanúmer, fjöldi stafa, sem ekki eiga að sjást.

Eru gjaldatöflurnar í samræmi við gjaldatöflur Landssímans, Vodafone og þeirra sem selja símaþjónustu?

Já, að mestu leiti. Einhver símsvæði gætu verið í ósamræmi, en reynt er að hafa töfluna í samræmi við símþjónustu sala.

Er auðvelt að viðhalda gjaldatöflu?

Það er mjög auðvelt að viðhalda gjaldatöflu. Valin er valmynd Gjaldatöflur og þar er síðan valið svæði sem breyta skal. Hægt er að hafa mismunandi verð eftir tíma dags. Grunnverð (start verð), fast verð og sérstaka álagningu.

Ætlar Tölvubankinn að sjá um uppfærslur á gjaldatöflunni?

Já, í framtíðinni ætlar Tölvubankinn að uppfæra gjaldatöflur með breytingum, sem gefnar eru af símþjónustu sölum. Hægt verður að sækja nýjar gjaldatöflur á heimasíðu Tölvubankans gegn vægu gjaldi.

Er hægt að breyta/leiðrétta gjaldatöflu og endurreikna kostnaðinn aftur í tímann?

Já, það er gert með því að gjaldatöflunni er breytt miðað við tiltekið tímabil. Síðan er farið í Skýrslur efst í vinstra horni og þar valið Færslur, í þeirri mynd, sem þar birtist er símsvæðið síðan valið og smellt á hnappinn Endurreikna.

Er hægt að sjá hve langan tíma tók að svara símtölum?

Já, hægt er að vinna á margvíslegan hátt og fá fram ýmsar upplýsingar. Þar á meðal er hægt t.d. að fá símtöl, sem tóku meira en x sek. að svara. Einnig er hægt að fá upplýsingarnar í röð á margvíslegan máta.

Er hægt að búa til hóp viðskiptavina og gera eina fyrirspurn á hópinn?

Nei, en það er hægt að hópa saman skráða viðskiptavini í eina fyrirspurn. Það er gert með því að velja svæðið símanúmer og haka við “Nota valin símanúmer”. Þar eru viðskiptavinirnir valdir með því að halda niðri Ctrl takkanum. Þessi aðferð er alls staðar notuð í kerfinu þegar velja skal fleiri en eitt skráð svæði t.d. fleiri en eina deild, fleiri en einn starfsmann o.s.frv.

Get ég séð álagstoppa yfir inn/út hringingar?

Já, algengasta yfirlitið er að velja það tímabil sem við á, og raða eftir “Tíma dags”. Síðan er valið útlitið graf og þar sér maður á myndrænan hátt fjölda hringinga.

Er möguleiki að skoða dreifingu símanotkunar milli landa?

Já, það eru nokkrar aðferðir sem hægt er að nota við það. Algengast er að nota Skýrslusmiðinn út frá valmyndinni Skýrslur og velja lönd eftir símsvæðum. Önnur leið, sem er mjög myndræn og gefur skemmtilegar upplýsingar er að velja úr aðalvalmynd Heimur og skoða þar dreifingu símanotkunar eftir heimsálfum og fengið sundurliðun pr. land.

Er hægt að skoða upplýsingar eftir tilteknum flokkum?

Já, það eru mjög margir möguleikar til að tengja saman ýmsa flokka og svæði og hvort sem er í grafisku formi eða útprentuðum skýrslum, sundurliðaðar eða saman dregnar.

Er mögulegt að skoða eingöngu samansafnaðar (samtals) upplýsingar?

Já, ef aðeins á að skoða samdregnar upplýsingar er ýtt á hnappinn Skoða í Skýrslusmiðnum og þar er valið Eiginleikar skýrslu. Ýmsir möguleikar eru þar, sem vert er að skoða og prufa.

Er hægt að sjá hvaða símanúmer hringdi inn ef símtal hefur verið gefið í annan síma?

Það er hægt í mjög fáum símstöðum (algjör undantekning). Ef þetta er möguleiki þá kemur símanúmerið í ‘yfirfærða færslu’ og er þannig hægt að rekja “ferð” símtals.

Er hægt að breyta deild á símtæki og uppfæra gögn eftir því?

Já, eftir að búið er að leiðrétta deildir á símtæki/starfsmann er farið í Skýrslur efst í vinstra horni og þar valið Færslur, í þeirri mynd, sem þar birtist er valið Sérvinnslur og birtist þar mynd, sem þarf að fylla í viðkomandi svæði. Í þessum verklið er hægt að breyta auk deilda, starfsmaður, símsvæði og verkefni.

Hvað skal gera ef innlestur átti sér stað og ekkert uppfærðist í gagnagrunninn?

Í útgáfu 2.5 af kerfinu er mjög ólíklegt að þetta komi fyrir, en ef svo fer hefur að öllum líkindum verið hróflað við slóð móttökuskráa. Þetta er hægt að skoða með því að hægrismella á “ikon” fyrir símlestur (neðst í hægra horni) og velja slóð móttökuskráa.

Hvað skal gera ef það vantar verð á útsímtöl?

Það þarf að athuga hvort gjaldskrá sé rétt og símtal sé lengra en 0 sekúndur. Einnig getur þurft að athuga stýrikóða fyrir útsímtöl, en virkni á þeim kóðum þarf að vera ‘B’.

Hvað skal gera ef ég keyri skýrslu en engin gögn koma?

Ef engin gögn koma þegar búið er að ræsa val, þarf að athuga hvort rétt hafi verið valið. Ef það virðist í lagi er farið til baka í aðalvalmynd, smellt á Skýrslur efst í vinstra horni og síðan valið Færslur. Þar er hægt að flétta í öllum færslum í gagnagrunninum og athugað hvort þar séu færslur sem uppfylla valin skilyrði.

Hvað skal gera ef Símriti sækir engin gögn?

Þá skal athuga hvort snúra milli tölvu og símstöðvar sé í sambandi og sé óskemmd. Ef tengingar eru í lagi, þarf að skoða símritann og hvort hann sé stilltur á ‘Tengt’. Ef það er í lagi, þá er smellt á uppsetning og athugað hvort stillningar séu réttar: raðtengi, bitatíðni, gagnabitar, paraprófun og stoppbitar.